Gott fólk gerir vonda hluti seinni partinn

Ef þú þarft að eiga mikilvægt símtal eða ræða viðkvæmt mál við samstarfsmenn er best að gera það fyrir hádegi. 

Nýleg rannsókn sem Maryam Kouchaki við Harvard háskólann og Isaac Smith við Utah háskólann framkvæmdu sýnir að fólk er mun líklegra til að segja ósatt, svíkja, stela eða hegða sér á einn eða annan hátt siðferðilega rangt eftir hádegi en að morgni til. Þetta er einhvern veginn svona. Þú byrjar daginn með góðan ásetning, velur þér heilsusamlegan morgunmat, tekur stigann í stað þess að taka lyftuna, og ræðst á lykilverkefnin þegar þú mætir í vinnuna. Um þrjúleytið er orkan og sjálfsstjórnin farin að dvína. Þú lætur freistast af súkkulaðikexinu í eldhússkápnum og lyftunni til að komast upp á næstu hæð, og lokar tölvunni áður en þú hefur svarað öllum tölvupóstunum. 

Það hefur komið í ljós að við erum ekki bara líklegri til að taka slæmar ákvarðanir fyrir heilsuna og frammistöðu í starfi seinni part dagsins heldur tökum líka lélegri siðferðilegar ákvarðanir þegar orkustigið lækkar. Sálfræðingar halda því fram að sjálfsstjórn sé eins og vöðvi sem verður örmagna eftir notkun. Við erum í stakk búin til að taka framtíðarmiðaðar og frjórar ákvarðanir og fresta ánægju eða umbun, en aðeins í ákveðinn tíma.  Á ákveðnum tímapunkti verðum við þreytt og föllum í freistni. 

Niðurstöður rannsóknar Kouchaki og Smith sem nefnd var hér fyrir ofan sýndu að þátttakendur voru líklegri að segja ósatt eftir hádegi en að morgni til. Í tveimur tilraunum fengu þátttakendur að sjá mismunandi mynstur af doppum á tölvuskjá. Þeir voru beðnir um að tilgreina hvort þeir sæju fleiri doppur vinstra megin eða hægra megin. Þeir fengu ekki pening fyrir réttu svörin en fengu í staðinn greiðslu byggt á því hvoru megin þeir sæju fleiri doppur. Þeir fengu tífalt meiri pening fyrir að velja hægri hlið skjásins, jafnvel þó að óneitanlega væru fleiri doppur vinstra megin á skjánum, s.s. skýrt dæmi um svindl. Það kom í ljós að þátttakendur sem voru prófaðir milli kl. 8 og 12 voru minna líklegir til að svindla en þeir sem tóku þátt í tilrauninni milli kl. 12 og 16. 

Rannsakendur skoðuðu einnig siðferðilega meðvitund fyrir og eftir hádegi og komust að því að við höfum tilhneigingu til að kúpla okkur frá siðferðilega eftir hádegi – við hættum að hugsa um siðferði aðstæðnanna og upplifum ekki sektarkennd. Því miður er mjög heiðarlegt fólk viðkvæmara fyrir neikvæðum afleiðingum þessara áhrifa, að mati Kouchaki og Smith.  

Það eru nokkur atriði sem við getum lært af þessu:

  • Mikilvægt er að nýta morgnana í verkefni sem krefjast einbeitingar og hugsunar. Ef þú þarft t.d. að eiga viðkvæmar umræður við (sam)starfsmenn er best að gera það fyrir hádegi.
  • Haltu í gildin þín. Rannsóknin sýndi að siðferðilega röng hegðun átti sér aðeins stað ef fólk fjarlægðist eigin gildi og siðferði eins og heiðarleika, hreinskilni og heilindi. 
  • Þegar fólki er stillt upp við vegg er það líklegra til að segja ósatt. Það er því betra að ræða málin við það en að krefja það svara þar sem þrýstingur getur valdið því að fólk fer að verja eigin afstöðu og fær þörf fyrir að réttlæta hana.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 28. maí 2014.