Fjórar leiðir til að draga úr streitu

Í lífinu lendum við oft í óvæntum aðstæðum og erum stundum ekki í aðstöðu til að staldra við og meta þær. 

Þess vegna er gott að hafa nokkrar aðferðir i handraðanum til að ná andanum, halda ró sinni og hlúa að líkama og sál. Hér fyrir neðan eru fjórar aðstæður og leiðir til að bregðast við þeim:

1. Þú ert beðin(n) um að halda kynningu
Þegar við neyðumst til að stíga út fyrir þægindarammann veltum við oft fyrir okkur öllu því versta sem gæti gerst eða rifjum upp aðstæður þar sem við gerðum mistök. Í stað þess að berja okkur með svipu fyrir allt það sem við hefðum átt að gera eða getað gert er betra að rifja upp áskorun sem við tókumst á við með glæsibrag. Með því að einblína á það sem gekk vel í stað þess að dvelja við það sem fór úrskeiðis bætum við dómgreind okkar og ákvörðunartöku. Að halda skrá yfir það sem við erum stoltust af og skoða hana reglulega getur hjálpað til við að ýta minninu í jákvæðari hátt þegar við erum föst í neikvæðri hugsun.

2. Ættingi sem á það til að ýta á viðkvæma bletti er á leið í heimsókn
Þegar við verðum reið eða pirruð eru fyrstu viðbrögð okkar oft að hækka róminn eða blóta. Hegðun þessi, þó að hún sé eðlileg, lætur okkur oft líða verr. Frekar en að láta ástandið ná yfirhöndinni er betra að fara í það sem heitir vitræn endurskipulagning.

Í grundvallaratriðum snýst vitræn endurskipulagning um það að breyta því hvernig við hugsum og þar með hvernig okkur líður. Í stað þess að hugsa: „Ég trúi því ekki að frændi komi um helgina, ég er svo reið(ur) að ég gæti öskrað“, er betra að hafa hugsanir sínar uppbyggilegri og segja: „Þetta er svekkjandi og það er skiljanlegt að ég skuli vera í uppnámi, en að reiðast mun ekki laga neitt.“ Með því að breyta hugsunum okkar komumst við ekki aðeins að því að við munum lifa heimsóknina af heldur getum einnig komið með lausnir til að auðvelda hana, eins og t.d. með því að skipuleggja viðburði til að halda frænda uppteknum.

3. Eftir vikufrí er mikið magn tölvupósta í innhólfinu
Risastórt innhólf getur ýtt undir fjölvirkni eða „multi-tasking“. En þó að við höldum að það að gera margt í einu spari tíma er sannleikurinn sá að heili mannsins er ekki hannaður til að gera tvennt eða fleira í einu. Fræðimenn við Stanford háskólann sem rannsökuðu afleiðingar fjölvirkni komust að því að hún dregur úr skilvirkni, afköstum, nákvæmni og einbeitingu. Það að sinna mörgum verkefnum í einu örvar auk þess framleiðslu streituhormóna á borð við kortísól sem geta veikt ónæmiskerfið og dregið úr viðnámi líkamans gegn sjúkdómum.
Til að takast á við mikið magn tölvupósta er gott að ætla sér ekki að svara þeim öllum í einu heldur taka frá t.d. 15-30 mínútur í dagatalinu og gera ekkert annað á meðan. Þannig er hægt að útiloka truflanir og halda fókus. 

4. Krakkarnir eru að rífast, síminn hringir og kvöldmaturinn er að brenna við
Á streituvekjandi augnablikum er andardrátturinn besti vinur okkar. Rannsóknir hafa sýnt að djúpöndun hefur jákvæð áhrif á bæði skap og streitustig. Og það besta af öllu er að öndunaræfingar eru alltaf tiltækar, við þurfum ekki sérstakan búnað eða aðstæður. 

Michigan Health System háskólinn mælir með kviðöndun. Finndu þægilegan, rólegan stað til að setjast eða leggjast niður. Lokaðu augunum og einbeittu þér að önduninni. Slakaðu á í háls-, axlar- og brjóstkassavöðvum á meðan. Settu aðra höndina á efri bringuna og hina á magann og slakaðu á eins mikið og þú getur. Andaðu hægt inn um nefið (með lokaðan munn). Þú ættir að finna magann þenjast út með annarri hendinni á meðan bringan hreyfist tiltölulega lítið. Settu síðan stút á varirnar, andaðu út um munninn og finndu magann slaka á. Endurtaktu þessa öndunaræfingu tíu sinnum fyrir hámarksáhrif.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 2. nóvember 2021.