Er hamingjan ofmetin?

Árið 2008 komu út 4000 bækur um hamingju samanborið við aðeins 50 bækur átta árum áður. 

Vinsælustu námskeiðin í Harvard háskólanum eru um jákvæða sálfræði, og að minnsta kosti 100 aðrir háskólar bjóða sambærilegt nám. Símenntunarnámskeið um hamingju tröllríða öllu og á hverjum degi lofa svokallaðir „lífsþjálfarar“ viðskiptavinum sínum himnasælu.

Í lok 10. áratugar síðustu aldar hvatti sálfræðingurinn Martin Seligman samfræðimenn sína til að grannskoða heilbrigt hugarástand með jafn miklum ákafa og þeir höfðu í svo mörg ár rannsakað andlega sjúkdóma. Hann var þeirrar skoðunar að við myndum aldrei vita allt um mannlegt eðli nema með því að öðlast jafn mikla þekkingu á andlegri vellíðan og andlegri vanlíðan.  Heill her sálfræðinga hefur á undanförnum árum stigið fram í sviðsljósið og komið fram með virðingarverðar rannsóknir á jákvæðum persónueinkennum og aðferðum til að auka hamingjuna. Rannsóknir í taugafræði hafa líka veitt okkur nýjar vísbendingar um starfsemi heilans og tengsl hennar við hamingju.

Samt virðist ekki allt í himnalagi. Samkvæmt sumum mælingum hefur fólk orðið daprara og meira kvíðið á þessum sömu árum sem  jákvæðnisálfræðin hefur blómstrað. Notkun á geðlyfjum hefur t.d. aldrei verið meiri. Kannski er það ástæðan fyrir því að við höfum ákaft sótt í bækur og annað sem jákvæðnisálfræðin hefur fært okkur. Sumir hafa haldið því fram að ástæða þess að háskólanemar skrái sig í kúrsa um jákvæðnisálfræði sé sú að 15% þeirra eru sagðir klíniskt þunglyndir.

Jákvæðnisálfræðin hefur fengið sinn skerf af gagnrýni. Sumir líta á hamingjusveitina sem tunguliprar Pollýönnur. Hópur fræðimanna hefur barist gegn þessu nýja sviði sálfræðinnar, þar á meðal Jerome Wakefield við New York háskólann og Alan Horwitz við Rutgers háskólann með bók sinni The Loss of Sadness: How Psychiatry Transformed Normal Sorrow into Depressive Disorder. Eric Wilson við Wake Forest háskólann, sem skrifaði bókina Against Happiness, tekur upp hanskann fyrir depurðina. Félagarnir halda því fram að við höfum verið of upptekin af hamingju á kostnaði sorgar, þeirrar mikilvægu tilfinningar sem við höfum reynt að hrekja brott úr tilfinningaskalanum okkar.

Horwitz harmar að ungt fólk sem er eðlilega grátgjarnt eftir sambandsslit er oft hvatt til að taka lyf í staðinn fyrir að vinna sig í gegnum sorgina. Eric Wilson er mjög óánægður með að þráhyggja okkar varðandi hamingju hefur leitt til þess að við „dissum“ huglaust depurðarsjónarhornið sem hefur gefið okkur stærstu listaverk sögunnar. „Hamingjusamur maður“, segir hann, „er innantómur maður.“

Bæði þeir sem eru með og þeir sem eru á móti hamingjusjónarhorninu eru reyndar sammála um eitt – að mannfólkið eigi það til að leita að yfirborðskenndum úrræðum sem plástur á sárin, eins og t.d. kaupæðisköst og skyndibitamat til að bæla neikvæðar tilfinningar sem herja á okkur. Slíkar ráðstafanir virðast velta á þeirri trú að varanleg hamingja sé einhvern veginn fæðingarréttur okkar. Rannsóknir sýna reyndar að slík skyndiúrræði róa okkur niður – í smá tíma alla vega. Þau skilja okkur hins vegar eftir fátækari, líkamlega óhraustari og yfirleitt vansælli til lengri tíma litið – og án raunverulegrar færni til að ná okkur upp úr hjólförunum. 

Hamingja er ekki um það að brosa stöðugt. Hún snýst heldur ekki um það að útiloka geðvonskuköst eða það að vera gersneyddur gagnrýnni skoðun. En hver er skilgreiningin á hamingju? Gagnlegasta skilgreiningin – og sú sem taugasérfræðingar, geðlæknar, jákvæðnisálfræðingar og búddamunkar geta sameinast um – er meira í áttina við ánægju eða það að vera sáttur en „hamingjusamur“ í þeim skilningi að maður springi af kæti. Hún hefur ákveðna dýpt og yfirvegun. Hún lýtur að því að lifa innihaldsríku lífi þar sem maður notar hæfileika sína og tíma - útpældu lífi sem hefur tilgang. Hamingjan nær hámarki þegar maður upplifir sig einnig sem hluta af samfélagi. Og þegar maður tekst á við gremju sína og vandamál með þokka. Hamingja innifelur viljann til að læra og dafna og vaxa, þó að það þýði stundum óþægindi. Hamingja krefst að hafa áhrif á, ekki bara að meðtaka. Hún er ekki gleði, tímabundin kæti, eða jafnvel unun, þessi nautnafulla víma, þó að þeir sem njóta dagsins upplifi stöðugan straum af slíkum tilfinningum.

Það hefur verið mikil framför í því að skilja hamingju og hvernig eigi að öðlast hana. Hér fyrir neðan eru aðalniðurstöðurnar sem rannsóknir hafa fært okkur.

Sumt fólk fæðist hamingjusamt
Sumir eru það heppnir að fæðast með bjartara, jákvæðara viðhorf en aðrir; þeir einfaldlega sjá fegurðina og tækifærin þar sem aðrir sjá aðeins veikleika og hættur. En þeir sem eru með óheillavænlegra viðhorf geta breytt því, að minnsta kosti að einhverju leyti. Þeir geta lært að breyta óttaslegnum tilfinningum sínum og neikvæðum ályktunum eins og: „Hún heldur að ég sé bjáni“, „Mér verður örugglega sagt upp“, „Ég mun aldrei verða góð móðir“ – og jafnvel losað sig algjörlega við þær. Að eiga í jákvæðum innri samræðum er það sem einkennir andlegt heilbrigði.

Að fá það sem maður vill færir manni ekki hamingju
Maður myndi halda að hamingjan kæmi þegar maður ynni í lottóinu, eða hyrfi ef húsið eyðilegðist í snjóflóði. Mannveran er þó ótrúlega aðlögunarfær. Eftir tímabil aðlögunar förum við aftur á okkar fyrra hamingjustig, sama hvað kemur fyrir okkur, með örfáum undantekningum þó. Atburðir eins og makamissir og starfsmissir leiða til varanlegrar lækkunar á hamingjukvarðanum.

Aðlögunarhæfni okkar virkar í tvær áttir. „Af því að við erum aðlögunarhæf“, segir Sonja Lyubomirsky, sálfræðiprófessor við háskólann í Kaliforníu við Riverside, þá venjumst við hratt þeim afrekum sem við stefnum að í lífinu, eins og að komast í flott starf eða gifta okkur. Stuttu eftir að við náum slíkum tímamótum finnum við fljótt að eitthvað vantar. Við byrjum að ásælast aðra veraldlega eign eða félagsleg framför. Þessi nálgun heldur okkur gangandi í stigmyllunni þar sem hamingjan er alltaf á næsta leiti, einu skrefi á undan.“ Lyubomirsky segir að hægt sé að sleppa úr stigmyllunni með því að einblína á athafnir sem eru kraftmiklar, koma á óvart og sem hægt er að sogast inn í, og þar af leiðandi ekki eins líklegar til að valda leiða.

Sársauki er hluti af hamingjunni
Hamingja er ekki umbun fyrir að flýja sársauka. Hún krefst þess að við tökumst á við neikvæðar tilfinningar án þess að láta þær vinna bug á okkur. Russ Harris, læknir og höfundur bókarinnar The Happiness Trap, segir vinsælar hugmyndir um hamingju hættulegar þar sem þær undirbúi fólk undir stríð gegn raunveruleikanum. „Þær viðurkenna ekki að lífið er fullt vonbrigða, missis og óþæginda. Ef þú vilt lifa innihaldsríku lífi muntu upplifa allan tilfinningaskalann. Þetta snýst ekki um það að takmarka litaspjald tilfinninga.“ Þegar öllu er á botninn hvolft gefur neikvætt hugarástand okkur vísbendingu um hvað við metum mikils og hverju við þurfum að breyta. Að syrgja ástvin staðfestir hversu vænt okkur þykir um sambönd. Vonbrigði með nokkur störf í röð er merki um að við erum ekki í rétta starfinu. Hamingja væri tilgangslaus ef það væri ekki fyrir sorg: án andstæða myrkurs sjáum við ekki birtu. 

Gjörhygli skapar hamingju
Gjörhygli (e. mindfullness)  er andlegt ástand þar sem við höfum athygli í núinu á opinn og virkan hátt.  Þegar við erum gjörhugul áttum við okkur á því að við erum ekki hugsanir okkar heldur lifum þær frá augnabliki til augnabliks, án þess að taka afstöðu eða dæma þær. Gjörhygli þýðir að vera með hugsunum sínum eins og þær eru, án þess að grípa þær eða ýta þeim burt. Gjörhygli getur verið kraftmikið tól til að upplifa hamingju ef við stundum hana reglulega. „Ef þú stundar gjörhygli missa neikvæðar tilfinningar áhrif sín. Þú bara lætur þær vera án þess að rembast gegn þeim eða dæma þær, og með tíð og tíma upplifir þú minni kvíða og þunglyndi“, að sögn Russ Harris. „Það er ekki gott að hrekja brott neikvæðar tilfinningar, en maður á heldur ekki að láta þær hamla árangursríkar aðgerðir.“

Hamingja er í förinni
Aðgerðir í áttina að markmiðum öðrum en hamingju færa okkur hamingju. Þó að það geti verið gott annað slagið að slökkva á heilanum og horfa á ódýra B-mynd eða lesa ómerkilega ástarsögu, þá mun slík auðveld skemmtun aldrei kveikja í okkur eins og þegar við náum tökum á nýrri færni eða byggjum eitthvað frá grunni. Og það er ekki það að komast í mark sem er mest gefandi. Richard Davidson taugasérfræðingur við Wisconsin háskólann komst að því að það að vinna ötullega að markmiði, og taka framförum í áttina að því, framkallar ekki aðeins jákvæðar tilfinningar heldur bælir niður neikvæðar tilfinningar eins og ótta og þunglyndi.

Peningar færa okkur hamingju – alla vega einhverjir peningar og einhverja hamingju
Peningar færa okkur hamingju, en aðeins upp að því marki að þeir gera okkur kleift að lifa þægilegu lífi. Fyrir utan það geta peningar ekki aukið vellíðanina. Hins vegar færir gjafmildi okkur raunverulega gleði þannig að auðæfi getur raunar örvað hamingjuna þ.e.a.s. ef þú gefur gefa auðinn.

Hamingja er afstæð
Hvort sem við tökum þátt í lífsgæðakapphlaupinu eða ekki þá hefur félagsleg staða áhrif á hversu hamingjusöm við erum. Sumir eru auðvitað meira uppteknir af henni en aðrir, en við erum hins vegar öll stillt inn á hvernig okkur gengur í lífinu samanborið við aðra. Til að láta ekki félagslega stöðu okkar naga hamingju okkar er mikilvægt að velja jafnaldrahópinn vandlega. Þeim sem á minnsta húsið í ríkramannahverfinu gæti liðið verr en  þeim sem kaupir stærstu villuna í minna ríku hverfi.

Valkostir gera okkur vansæl
Við erum stöðugt að taka ákvarðanir, allt frá því hvað við eigum að hafa í matinn og hverjum við eigum að giftast, svo við tölum ekki um allar ísbragðtegundirnar. Við byggjum margar ákvarðana okkar á því hvort við höldum að þær muni auka vellíðan okkar. Innst inni erum við sannfærð um að því fleiri valkosti sem við höfum, þeim mun betur séum við stödd. Þessi heimur okkar þar sem tækifærin eru ótakmörkuð fangelsa okkur frekar en að færa okkur hamingju. Barry Schwartz sálfræðingur kallar þetta „þversögn valsins“. Að standa andspænis mörgum valkostum skapar streitu og gerir okkur minna ánægð með ákvörðun okkar. Að hafa of marga valkosti fær okkur til að velta fyrir okkur hverju við misstum af.

Hamingja er annað fólk
Chris Peterson, jákvæðnisálfræðingur við Michigan háskólann, segir að byggt á rannsóknunum sé besta ráðið sem hann geti gefið fólki það að gera það að þróa sterk sambönd að forgangsverkefni. Góð tengsl eru stuðpúði gegn öllum þeim skaðlegu áhrifum sem mótlæti og bakslög, sem eru óhjákvæmilegur hluti af lífinu, færa okkur.  

Gerðu heimavinnuna
Maður getur aukið jákvæðar tilfinningar með því að gera ákveðnar æfingar að venju. Sonja Lyubomirsky er með nokkrar gagnlegar tillögur, eins og t.d. að tjá þakklæti sitt gagnvart fólki í bréfi eða dagbók, sjá bestu mögulegu framtíðina fyrir sjálfan sig fyrir sér einu sinni í viku, og sýna reglulega góðmennsku gagnvart öðrum til að lyfta andanum á augnablikinu og yfir tíma. „Að verða hamingjusamari kostar vinnu, en það verður líklega mest gefandi vinnan þú hefur nokkurn tíma unnið“, segir hún.  

Hamingja veltur á tímarammanum
Það að vera hamingjusamur á meðan þú ert að vinna dagleg verkefni hefur kannski ekki mikið að gera með hversu ánægður þú ert almennt. Tíminn skekkir nefnilega skynjun okkar á hamingju. Foreldrar líta oft með hlýju tilbaka á fyrstu árin í lífi barna sinna. Daniel Kahnemann sálfræðingur við Princeton háskólann komst hins vegar að því að umönnun barna er lágt á listanum yfir það sem gerir fólk hamingjusamt, neðar en það að taka blund eða horfa á sjónvarpið. Eigi að síður, ef þú horfir tilbaka og veltir fyrir þér áratugi lífs þíns, hvort myndi þá skora hærra: það að ala upp börnin eða það að blunda í sófanum milli þess sem þú horfðir á þátt af Leiðarljósinu? Mikilvægt er því að meta hamingju þína bæði í stóru samhengi og í smáum verkefnum til að fá sem réttasta mynd af eigin hamingju.

Þú hefur á röngu á standa varðandi það sem færir þér hamingju og einnig það sem færði þér hamingju
Daniel Gilbert sálfræðingur við Harvard háskólann uppgötvaði djúpan sannleik um hamingjuna: Hlutir eru sjaldan jafn slæmir – eða jafn góðir – og við búumst við. Stöðuhækkun er frekar spennandi, en hún verður ekki sólarhrings skemmtiganga. Sambandsslit geta verið mjög erfið, en einnig lærdómsrík og jafnvel orkugefandi. Við erum ekki góð í að spá fyrir um framtíðartilfinningar með nákvæmni, sérstaklega þar sem spá okkar er byggð á fyrri reynslu. Fortíðin lifir jú í minninu, og minnið okkar er ekki mjög áreiðanlegt upptökutæki: Við munum byrjun og endi með miklu meiri ákefð en „langa miðju“, hvort sem hún er viðburðarík eða ekki. Þannig að hræðileg byrjun á fríinu mun leiða þig afvega þegar ákveða á stað til að heimsækja á næsta ári. „Það sem spáir best fyrir um það hvort þú munir hafa ánægju af einhverju er hvort einhver annar hafði gaman af því. Spurðu einfaldlega vin þinn sem fór til Grænlands hvort þú ættir einnig að fara þangað“, segir Gilbert. 

Hamingja er að taka opnum örmum hvernig þú ræður við hlutina
Ekki allir geta sett á sig brosandlit. Barbara Held sálfræðiprófessor við Bowdoin College sem dæmi kvartar sáran undan því sem hún kallar „harðstjórn jákvæðs viðhorfs“. „Að líta á björtu hliðarnar reynist ekki öllum hægt og getur jafnvel haft þveröfug áhrif“, staðhæfir hún. „Þegar maður neyðir fólk til að bregðast við á hátt sem hentar því ekki, virkar það ekki aðeins illa heldur fær það til að líta á sig sem mistök.“ Julie Norem, höfundur bókarinnar The Positive Power of Negative Thinking, segir að þessi áhersla á einu og réttu leiðina til að stjórna tilfinningum sínum sé byggð á misskilningi. Í rannsóknum sínum hefur Norem sýnt fram á það að svartsýnin hjálpar kvíðnu fólki við að koma hlutunum í verk, sem gerir það síðan hamingjusamara. Svartsýnn arkitekt sem dæmi gerir sér litlar væntingar til kynningarfundarins framundan og fer yfir allar neikvæðu niðurstöðurnar sem hann ímyndar sér, þannig að hann geti undirbúið sig vandlega og aukið möguleikann á árangri.

Hamingja er að lifa gildin sín
Ef maður lifir ekki samkvæmt gildum sínum, verður maður ekki hamingjusamur, alveg sama hversu miklum árangri maður nær. Sumir eru hins vegar ekki vissir um gildin sín. Ef þú ert einn af þeim þá er Russ Harris með frábæra spurningu fyrir þig: „Ímyndaðu þér að þú gætir veifað töfrasprota til að tryggja að þú fengir samþykki og aðdáun allra á plánetunni fyrir lífstíð. Hvað myndirðu þá vilja gera við líf þitt?“ 

Eftir að þú hefur svarað heiðarlega geturðu tekið skref í áttina að þinni kjörhugsjón. Það skiptir ekki máli hvað þú gerir, svo lengi sem þú lifir meðvitað. Hamingju er í raun og veru ekki ástand heldur áframhaldandi persónuleg tilraun.

Heimildir:

  • Greinin The Pursuit of Happiness eftir Carlin Flora í tímaritinu Psychology Today Magazine, Jan/Feb 2009
  • Authentic Happiness eftir Martin E.P. Seligman frá árinu 2002.
  • The How of Happiness eftir Sonju Lyubomirsky frá árinu 2007.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Nýju lífi, 8. Tbl., 32. Árg. 2009.