Að þjálfa hug byrjandans

Núvitund hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og sífellt fleiri hafa þann ásetning að þjálfa meðvitaða athygli og vera meira til staðar í eigin lífi.

Ekki einungis stjórnendur og starfsfólk í fyrirtækjum á borð við Google, Maersk, eBay, Apple, Nike og Facebook leggja stund á núvitund heldur hafa skólar á öllum skólastigum tekið þetta upp sem og danska ríkisstjórnin, til að nefna bara nokkur dæmi.

Opinn og forvitinn hugur

Eitt af því sem einkennir núvitund er að nálgast hlutina með hug byrjandans. Hugur byrjandans getur aðstoðað okkur við að sjá hluti í nýju ljósi frekar en að bregðast við þeim á sjálfsstýringunni. Hugur byrjandans er opinn og gæddur forvitni og undrun, líkt og hjá ungu barni. Hann tekur þátt í upplifunum eins og um fyrsta skiptið sé að ræða og er laus við fyrirfram mótaðar skoðanir, væntingar, dóma og ályktanir. Hugur byrjandans er í núinu til að skanna, skoða og sjá hluti eins og þeir eru. Um leið og við ákveðum að við vitum allt þá lokum við á tækifærið til að læra.

Góð leið til að þjálfa hug byrjandans er að ímynda sér að maður sé að upplifa eitthvað í fyrsta skipti á ævinni. Ímyndaðu þér til dæmis í sturtunni að þú finnir heitt vatnið renna niður um líkamann og hárið í fyrsta sinn, finnir blómalyktina af sápunni eða horfir á gufuna umlykja þig. Heyrir í vatninu skvettast á sturtuhurðina og niður á sturtubotninn.

Núvitund er til dæmis að veita matnum sem við borðum óskerta athygli. Hafa slökkt á útvarpi, sjónvarpi, tölvunni og símanum og lesa ekki blöðin á meðan. Nota öll skilningarvitin, finna lyktina af matnum, finna áferðina á tungunni, greina í sundur mismunandi bragðtegundir í munninum, finna hvert tungan fer þegar við kyngjum, heyra hljóðið þegar við tyggjum o.s.frv. Þannig njótum við hvers bita betur auk þess sem við borðum hægar.

Hugmynd að æfingu

Eftirfarandi æfing er mjög gagnleg til að þjálfa hug byrjandans:

  1. Svipastu um í stofunni, eldhúsinu eða svefnherberginu og finndu hlut sem þú hefur átt lengi og þekkir vel. Það getur t.d. verið bók, blóm, stytta eða málverk.
  2. Sestu niður og lokaðu augunum. Andaðu djúpt nokkrum sinnum og ásettu þig um að þróa hug byrjandans.
  3. Opnaðu augun og virtu fyrir þér þv sem þú valdir. Ímyndaðu þér að þú sért frá annarri plánetu og hafir aldrei séð þennan hlut áður. Horfðu á hlutinn án þess að dæma hann.
  4. Taktu eftir eiginleikum hlutarins. Hverju líkist hann? Hvernig er áferðin? Falla skuggar á hann eða endurkastar hann ljósinu?
  5. Veltu fyrir þér að lokinni æfingunni hvort þú hafir lært eitthvað nýtt um hlutinn sem þú valdir? Sástu skarpari línur, meiri dýpt, skærari liti? Varstu í meiri tengslum við það sem þú horfðir á? Hvernig væri ef við myndum nálgast allt í okkar lífi með hug byrjandans? Eru hlutir, fólk eða aðstæður sem þú nálgast á sjálfstýringunni eins og þú vitir þegar hvernig þeir eru?

Gott er að skrifa niður athafnir daglegs lífs sem þú framkvæmir yfirleitt án þess að veita þeim meðvitaða athygli, eins og að bursta tennurnar, greiða hárið, klæða sig í eða úr eða vaska upp. Taktu síðan eftir hvað gerist þegar þú ímyndar þér að þú framkvæmir þær í fyrsta sinn.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 5. október 2015.