Að sigrast á lífsins vonbrigðum

Við þurfum öll að takast á við mótlæti í lífinu, hvort sem er í starfi, ástarsamböndum eða fjölskyldulífi.

Mótlæti getur dregið okkur niður og haft í för með sér neikvæðar tilfinningar eins og kvíða og ótta. Hins vegar neyðir það okkur oft líka til að taka áhættu, læra og þroskast. 

Þegar við erum að ná okkur eftir áföll eins og t.d. starfsmissi, skilnað eða andlát ástvinar getum við þurft að takast á við ýmsar erfiðar tilfinningar eins og reiði, lágt sjálfsmat og sjálfsefasemdir. Þessar tilfinningar eru hluti af bataferlinu og því ekki gott að flýta sér of mikið. Með tímanum koma síðan aðrar tilfinningar sem gefa meiri von og bjartsýni.

Mikilvægt er að hafa í huga að þeir sem hafa náð miklum árangri, hvort heldur er í viðskiptum, námi, íþróttum eða á öðrum sviðum lífsins, hafa undantekningalaust þurft að takast á við mótlæti. Hér fyrir neðan eru nokkur góð ráð til að auka seigluna og sigrast á lífsins vonbrigðum: 

  • Viðurkenndu það sem gerðist. Áttaðu þig á því að enginn kemst hjá því að takast á við mótlæti í lífinu og að þú munir kannski aldrei skilja fyllilega hvað gerðist og hvers vegna.
  • Horfstu í augu við ótta þinn. Það er eðlilegt að vera óörugg(ur) en styrkurinn felst einmitt í því að gera hluti þrátt fyrir óttann sem kraumar innra með okkur.
  • Sýndu þolinmæði. Íhugaðu hvað þú ætlar að gera, en farðu þér hægt þar sem það mun aðeins gera illt verra að flýta sér um of. Það er mikilvægt að vinna sig í gegnum óþægilegu tilfinningarnar þar sem þær eru mikilvægt skref í að öðlast styrk á nýjan leik. 
  • Farðu út fyrir þægindahringinn. Taktu áhættu og ögraðu sjálfum/sjálfri þér. Leggðu þig t.d. eftir starfi sem þú heldur að þú ráðir ekki við.
  • Finndu hetjuna þína. Hugsaðu um fólk sem lætur ekki deigann síga þrátt fyrir áföll og erfið veikindi, eins og t.d. Eddu Heiðrúnu Backmann. Notaðu slíka einstaklinga sem fyrirmynd.
  • Vittu hvað þú vilt. Þegar maður er með skýra mynd í huganum af því hvert mann langar er auðveldara að gera áætlanir og láta svo verkin tala. 
  • Hugsaðu í lausnum frekar en að einblína á vandamálin. Sýndu frumkvæði og einblíndu á það sem þú getur gert.  
  • Taktu eitt skref í einu. Umfang verkefnis, eins og t.d. að finna nýtt starf eftir uppsögn, getur stundum virst óviðráðanlegt. Brjóttu það niður í smærri skref til að það verði yfirstíganlegt.
  • Leitaðu stuðnings. Talaðu við vin, fjölskyldumeðlim eða sérfræðing um hvernig þér líði eða skrifaðu það niður. Einnig getur verið hjálplegt að ræða við fólk sem hefur lent í svipaðri reynslu.
  • Ástundaðu heilbrigt líferni. Vonbrigði eru uppspretta streitu og því er mikilvægt að huga að heilsunni, hvílast vel, stunda reglulega hreyfingu og borða hollan mat.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 2011.