Að rækta með sér von er lykillinn að farsælu lífi

Von byggir á bjartsýni þ.e. að hlutirnir muni batna, jafnvel þegar þeir virðast erfiðir. Hún er nauðsynleg til að ná settum markmiðum.

Hún gerir okkur kleift að halda áfram þegar við lendum í áföllum og gefur okkur styrk til að berjast fyrir því sem við trúum á. Von er hæfileikinn til að læra af fyrri reynslu og nota þá þekkingu til að viðhalda von um framtíðina.

Nýjar rannsóknir á sviði heilavísinda sýna að von er nauðsynleg og að auðvelt sé að rækta hana með sér. Vísindamennirnir tveir, Martin Seligman og Steve Maier, sem komu fram með hugtakið „lært hjálparleysi“ á sjöunda áratugnum, hafa nú birt nýjar niðurstöður 50 árum síðar. Þeir hafa komist að því að þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum, bakslagi eða vonbrigðum, horfum við ekki aftur á bak til að aflæra það sem gerðist heldur bregst heilinn þannig við að hann tekur stjórn og horfir fram á veginn. 

Erfiðir atburðir valda kvíða
Þessar nýju uppgötvanir félaganna útskýra hvernig erfiðir atburðir valda kvíða og aðgerðaleysi. Algeng viðbrögð okkar eru að við verðum óvirk þegar eitthvað slæmt gerist. Það er eins og við séum með rofa sem getur slökkt á okkur til að spara orku okkar þegar aðstæður virðast slæmar. Heilinn metur síðan hvenær það er í lagi að nota orkuna til að kveikja aftur á voninni.

Að einblína á það sem er hægt að gera í framtíðinni frekar en á það sem gerðist í fortíðinni skapar von. Þegar við einblínum á það sem gerðist í fortíðinni verðum við áfram í myrkrinu en þegar við einbeitum okkur að framtíðarmöguleikum erum við í ljósinu. Það er vonin um betri framtíð sem skiptir mestu máli. 

Vonarhringrásin
Leiðin í heilanum sem Maier og Seligman uppgötvuðu kallast vonarhringrásin (e. hope circuit). Hér fyrir neðan eru þrjú skref til að rækta með sér von:

1. Að vera meðvitaður um ástandið. Von er eina jákvæða tilfinningin sem krefst þess að við virkjum neikvæðni eða óvissu. Við þurfum ekki von þegar allt er í lagi. Það mikilvægasta sem við getum gert þegar eitthvað neikvætt eða óvíst gerist er að staldra við og gera hlé. Frekar en að láta þá tilfinningu sem fyrst kemur upp stjórna, sem yfirleitt veldur því að heilinn okkar og líkaminn bregðast við ógnun, er gott að gefa sér augnablik til að verða meðvitaður um ástandið. Hvernig líður mér? Hvað er að gerast? Þetta gæti virst lítið, en að gera hlé gefur okkur tafarlausa sjálfsstjórn. Lykillinn að því að ná árangri er að láta aðstæðurnar ekki ráða viðbrögðum sínum. Að gera hlé tryggir að bregðumst við á meðvitaðan hátt.

2. Að leggja mat á aðstæður. Næsta skref er að skoða og meta aðstæður og spyrja sjálfan þig hvað það er sem þurfi að gera og hvaða úrræði, getu og hvatningu þú hafir. Það er líklega ekki hægt að stjórna öllu, en að finna út hvað þú trúir að þú getir gert mun gera gæfumuninn og gefa von.

3. Að grípa til aðgerða. Í bók Dan J. Tomasulo, Learned Hopefulness: The Power of Positivity to Overcome Depression, er aðalatriði æfinganna og dæmanna að sýna fram á að von er sagnorð. Að staldra við til að spyrja sjálfan sig hvað sé að gerast, finna út hvað þurfi að gera og hvað þú trúir að þú getir gert er auðvitað frábær byrjun. En þú verður að gera eitthvað til að staðfesta að þú hafir stjórn á aðstæðunum.

Virkjum kraft vonarinnar
Segjum að þú sért á leið á fund og það springur á bílnum. Þú ert hugsanlega reiður eða í uppnámi. Þú gætir fundið fyrir ósigri og sest í vegkantinn. Þú gætir líka kennt öðrum eða sjálfum þér um að hafa ekki skipt um dekkið í tæka tíð.

Þegar þú ræktar með þér von er fyrsta skrefið að gera hlé og verða meðvitaður um ástandið. Hvað er að gerast? Hvernig líður mér? 

Næsta skrefið er að meta aðstæðurnar. Hvað þarf að gera? Það þarf að skipta um dekk og ég þarf að komast á fundinn. Hvaða úrræði hef ég? Á ég tjakk og varadekk? Veit ég hvernig á að skipta um dekk? Er ég með símann? Þekki ég einhvern sem ég gæti hringt í til að koma og hjálpa mér?

Þriðja skrefið er aðgerðin, sem getur verið að hringja í makann eða góðan vin og biðja hann um aðstoð. Einnig að láta fundarmenn vita að þér seinki aðeins. Auðvitað eru margar mismunandi leiðir færar. Ef fundurinn er mjög mikilvægur gætirðu hringt í lögregluna og látið hana vita að bíllinn þinn hafi bilað, gefið henni upp staðsetningu og upplýsingar og sagt að þú komir aftur eins fljótt og auðið er. Þú gætir þá hringt í leigubíl til að komast sem fyrst á fundinn. Þú gætir einnig látið draga bílinn á hjólbarðaverkstæði.

Von er hægt að styrkja með því að breyta því sem við teljum okkur geta stjórnað. Þegar við einbeitum okkur að því sem við trúum að hægt sé að gera, virkjum við kraft vonarinnar.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á kjarninn.is 28. nóvember 2022.