Að nota styrkleika sína í eigin þágu og annarra

Eitt af því sem fræðimenn hafa beint sjónum sínum að síðustu ár er styrkleikar fólks. Hvernig við getum komið auga á þá, skerpt sýn okkar á þá og nýtt þá til að auka vellíðan og fylla okkur krafti og orku. 

Það er sérlega mikilvægt á þessum krefjandi tímum að nota styrkleikana í eigin þágu og annarra.

Mismunandi styrkleikar geta komið fram við mismunandi aðstæður. Chris Peterson og Martin Seligman, sem þróuðu VIA-styrkleikaprófið sem mælir 24 styrkleika, komust sem dæmi að því að styrkleikar eins og þakklæti, von, kærleikur, leiðtogahæfni, ást, andleg viðleitni og hópavinna voru meira áberandi eftir hryðjuverkaárásina í New York árið 2001. Ætli það sama sé ekki upp á teningnum á tímum kórónuveirunnar?

Meðfylgjandi eru nokkrar hugmyndir að áþreifanlegum og hagnýtum leiðum til að nota styrkleika sína í eigin þágu og annarra (styrkleikinn er skáletraður innan sviga):

  • Komdu nágrönnum þínum á óvart með köku sem þú bakaðir (kærleikur)
  • Sendu vinum eða kunningjum brandara eða myndband sem fær þá til að hlæja (húmor)
  • Horfðu á fólk dansa á Youtube og taktu þátt í stofunni (lífsorka, opinn hugur)
  • Hlustaðu á fallega tónlist á meðan þú sinnir heimilisstörfum (að meta fegurð)
  • Rifjaðu upp uppáhaldsmatinn þinn í æskunni og deildu minningum um hann með ástvinum þínum (þakklæti)
  • Liggðu á bakinu með fæturnar slaka og hendurnar niður með síðu og taktu djúpt andann í nokkrar mínutur (sjálfsstjórn)
  • Gefðu þér 20-30 mínútur á dag til að lesa bók eða grein sem víkkar sjóndeildarhringinn (lærdómsfýsi)
  • Ljúktu við verkefni sem hefur verið á verkefnalistanum lengi (þrautseigja)
  • Stígðu fram og taktu af skarið, t.d. með því að hefja söfnun fyrir góðu málefni (leiðtogahæfni)
  • Eigðu í reglulegum rafrænum samskiptum við bjartsýnt fólk (von, bjartsýni)
  • Samþykktu að neikvæðar tilfinningar eru óhjákvæmilegur hluti af lífinu og að þær muni líða hjá (auðmýkt)
  • Gerðu ráð fyrir að aðrir vilji þér vel (sanngirni, kærleikur)
  • Gerðu einfaldar jóga- eða styrktaræfingar með fjölskyldunni (hópavinna, lífsorka)
  • Vertu vakandi fyrir líðan annarra, hlustaði af athygli og bjóddu fram aðstoð (góðvild, félagsgreind)
  • Kúrðu með fjölskyldunni í tjaldi í stofunni (ást)
  • Skipuleggðu verkefni á heimilinu sem allir fjölskyldumeðlimir geta tekið þátt í, eins og að púsla, spila, skipuleggja ratleik í garðinum eða elda matinn (hópavinna)
  • Taktu eftir því fallega í daglegum göngutúr um hverfið (að meta fegurð, þakklæti)
  • Leggðu þig fram um að hlusta meira og tala minna í eina viku (félagsgreind)
  • Rifjaðu upp allt sem þú ert þakklát/ur fyrir í lífinu (þakklæti)
  • Eldaðu nýja uppskrift í hverri viku og notaðu hráefni sem þú hefur ekki notað áður (forvitni, sköpunargáfa)
  • Dragðu úr hraðanum á öllu því sem þú gerir, hvort sem það varðar lestur, heimilisstörf eða annað (varfærni, sjálfsstjórn)
  • Rifjaðu upp gamalt áhugamál sem þú hefur ekki sinnt lengi (sköpunargáfa)
  • Stígðu út fyrir þægindaramann og ögraðu þér, t.d. með því að halda rafrænt matarboð eða rafrænan fyrirlestur (hugrekki)
  • Skrifaðu niður 10 spurningar sem þið hefur alltaf langað til að fá svör við og leitaðu að svörunum á netinu, t.d. á Vísindavefnum (forvitni)
  • Taktu þátt í rafrænum tónleikum, syngdu með og finndu hvernig tónlistin nærir andann og blæs þér gleði í brjóst (að meta fegurð, þakklæti)
  • Hafðu athugasemdir þínar á samfélagsmiðlum jákvæðar (varfærni, félagsgreind)
  • Kynntu þér hvernig aðrir lifðu af krefjandi tíma og lærðu af þeim (raunsæi, lærdómsfýsi)
  • Njóttu róandi áhrifa þess að klappa gæludýri þínu (ást)
  • Gróðursettu kryddjurtir og hlúðu að þeim (að meta fegurð)
  • Gefstu ekki upp þótt heimaveran taki á og finndu leiðir til að láta þér líða vel (staðfesta, þrautseigja)
  • Veltu fyrir þér hvernig lífið gæti breyst til batnaðar eftir að faraldurinn verður yfirstaðinn (von)
  • Mundu að það er hægt að finna lausn á flestum vandamálum (opinn hugur)

Við þurfum alla þá orku og jákvæðni sem við getum náð okkur í. Með því að hlúa að styrkleikum okkar beinum við sjónum að því góða og fallega í okkar fari.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Kjarnanum 13. apríl 2020.