Að gera góðverk

Sonja Lyubomirsky, sálfræðingur frá Háskólanum í Riverside, hefur komist að því í rannsóknum sínum að eitt af því sem getur aukið hamingjuna er að gera góðverk. 

Að rétta öðrum hjálparhönd óumbeðið og gefa af sér fær mann til að líða vel í hjartanu. Góðverk þurfa ekki að vera eitthvað stórvægilegt því að það er hugurinn sem skiptir öllu.Það þarf oft lítið til að skapa ómælda gleði.

Hér fyrir neðan eru örfáar hugmyndir að góðverkum:

  • Gerðu tvöfaldan skammt af t.d. smákökum eða eftirlætisrétti og gefðu nágranna eða vinum.
  • Mokaðu snjó fyrir nágrannann þegar þú ert búin með þína stétt. 
  • Lærðu skyndihjálp. Þú veist aldrei hvenær þú þarft á því að halda. 
  • Haltu hurðinni opinni fyrir fólk, sérstaklega ef það heldur á pokum eða börnum.
  • Bjóddu þeim sem er fyrir aftan þig í röðinni með fáa hluti í innkaupakerrunni um að vera á undan.
  • Bjóddu börnum vina í bíó, lautarferð eða fjallgöngu svo að foreldrarnir geti slakað á.
  • Bjóddu þig fram í sjálfboðavinnu hjá góðgerðarsamtökum.
  • Tíndu mat í aukapoka og gefðu hann til Mæðrastyrksnefndar.
  • Færðu nýbökuðum foreldrum kvöldmat.
  • Aðstoðaðu fólk úti á götu sem virðist villt og vísaðu því til vegar.
  • Gefðu blóð – með því gætirðu verið að bjarga lífi. Blóðbankinn þarf 70 blóðgjafa á dag.
  • Aðstoðaðu eldri borgara með því að bera innkaupapokana út í bíl eða hjálpa þeim yfir götuna í hálkunni. 
  • Gefðu notuð föt til Rauða krossins. 
  • Bjóddu þig fram til að passa barn vinahjóna svo að þau geti átt rómantískt kvöld saman.
  • Farðu með gömlu tímaritin eða bækurnar á biðstofu spítalans.
  • Farðu í heimsókn á elliheimili til að spjalla við íbúa eða syngja fyrir þau.
  • Skrifaðu þakklætisbréf til vinar eða fjölskyldumeðlims.
  • Aðstoðaðu fólk í hjólastól eða með barnavagn upp eða niður tröppurnar. 
  • Haltu umhverfinu hreinu. Taktu upp plastflöskur og annað rusl og settu í ruslafötuna.
  • Bros er smitandi og getur yljað fólki um hjartaræturnar. Brostu til þeirra sem þú hittir.
  • Deildu góðri grein eða myndbandi með þeim sem gætu haft gagn eða gaman af.
  • Láttu það berast ef þú ert ánægð(ur) með veitingastað eða þjónustu.
  • Komdu makanum á óvart með morgunmat í rúmið. 
  • Hrósaðu fyrir það sem vel er gert.

Með því að gera góðverk getum við gert heiminn örlítið betri.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman