Að endurbyggja traust

Árið 2006 kom út bókina The Speed of Trust eftir Stephen M. R. Covey. Í bókinni fer hann í saumana á traustinu, á hvaða stoðum það stendur, hvernig má viðhalda því og endurheimta það hafi það glatast.

Góð samskipti og öflugt atvinnulíf verða ekki grundvölluð nema á styrkum stoðum trausts. Við getum ekki keypt traust né kennt það heldur þurfum við að ávinna okkur það með orðum okkar og gjörðum. 

Traustið er samansett úr fjórum stoðum sem eru heilindi, fyrirætlanir, geta og árangur. Allar þessar stoðir eru jafnmikilvægar og þurfa að vera í jafnvægi.

Heilindi vísa til þess hvað við stöndum fyrir og birtist í gildum okkar, viðhorfum og skoðunum og líka hugrekki okkar til að verja þessi heilindi þegar á reynir. Það er t.d. auðvelt að vera heiðarlegur og fara eftir lögum í góðæri en að standa freistinguna til að svíkja undan skatti þegar kreppir að er öllu erfiðara. Heilindi þurfa að vera í samhljómi við almenn norm í samfélaginu og þau þurfa líka að vera í samhljómi við fyrirætlanir. Sé ekki hugrekki til þess til staðar má draga heilindi okkar í efa og við erum séð sem tækifærissinnar sem gerum það sem kemur okkur best við hverjar tilteknar aðstæður. Heilindi ná einnig til þess að við séum tilbúin til að viðurkenna og bæta fyrir mistök.

Í öðru lagi eru það fyrirætlanir sem vísa einfaldlega til þess að hversu miklu leyti aðrir geta greint á fyrirætlunum okkar að við höfum gott í hyggju gagnvart öðrum. Að við höfum hagsmuni allra aðila í hyggju, að við göngum ekki einungis eigin erinda en leitumst við að aðrir hafi hag af samskiptum við okkur og við komum vel fram við þá. Fólk þarf að finna að við höfum góðar fyrirætlanir og að við viljum vel.

Í þriðja lagi þurfum við að hafa getuna eða hæfnina til að skila því sem við segjumst ætla að skila. Það þýðir t.d. að við þurfum að vera tilbúin til að viðhalda þekkingu okkar og færni og búa yfir þeim hæfileikum sem þau störf sem við tökum að okkur krefjast. Nútíminn gerir þær kröfur til okkar að við séum ávallt á tánum.

Fjórða stoð traustsins er árangur sem vísar til þess að verk okkar beri einhvern ávöxt. Við þurfum að ná þeim árangri sem við segjumst ætla að ná á þeim tíma sem við segjumst ætla að ná honum og árangurinn þarf að vera með þeim hætti að hann sé upplifaður fullnægjandi af hluteigandi aðilum. Það er á endanum árangurinn sem sker úr um það hvort við séum traustsins verð.

Allar þessar stoðir eru jafnmikilvægar og ekki er vænlegt að leggja meiri áherslu á eina þeirra umfram aðra. Árangur án heilinda er til dæmis oftast nær stórhættulegt fyrirbæri og að sama skapi, en kannski meinlausara, eru heilindi án árangurs ekki mikils virði til lengri tíma litið. Gæta þarf að því á hverjum tíma að unnið sé á þann hátt innan vinnustaðarins að við sinnum öllum þessum grunnstoðum og höfum þær í lagi. Þetta gildir í öllum lögum samfélagsins, hjá okkur sjálfum, milli einstaklinga, innan fyrirtækja, á markaði og síðan í samfélaginu sjálfu.

Stephen M. R. Covey nefnir nokkur atriði sem nauðsynleg eru til að endurheimta traust, m.a. að:

  1. tala hreint út og segja hlutina eins og þeir eru
  2. sýna öllum ávallt virðingu og umhyggju
  3. skapa gegnsæi
  4. leiðrétta mistök og taka ábyrgð á þeim
  5. sýna hollustu
  6. skila árangri
  7. nýta endurgjöf frá öðrum til að bæta sig
  8. horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er
  9. útskýra hvers þú væntir
  10. vera áreiðanlegur
  11. kunna að hlusta
  12. standa við skuldbindingar og gefin loforð
  13. treysta fólki

Traust getur aldrei verið einstefnugata og það mun ekki koma til okkar að ofan. Traust vex frá rótunum, þ.e. okkur sjálfum. Það getur tekið langan tíma að endurbyggja traust hafi það orðið fyrir hnjaski en það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 31. október 2016.