Að byggja upp seiglu á krefjandi tímum

Á tímum heimsfaraldursins fer geðheilsu fólks hrakandi með vaxandi kvíða, þunglyndi og kulnun. 

Þó sýna sumar rannsóknir að umtalsverður hluti fólks hefur fundið leiðir til að takast á við ástandið og dafna, þrátt fyrir heilbrigðiskreppuna og samfélagslegt umrót. Þessir einstaklingar búa yfir seiglu (e. resilience), sem er hæfileikinn til að gefast ekki upp þótt á móti blási og ná sér á strik eftir mótlæti. 

Eins og í öllum kreppum ná sumir að þroskast og verða sterkari en þeir voru fyrir heimsfaraldurinn, sem lýsir sér m.a. í því að þeir finna fyrir auknum persónulegum styrk, kunna betur að meta lífið auk þess sem sambönd við aðra verða nánari. Þeir endurmeta forgangsröðun sína og hætta að taka lífinu sem sjálfsögðum hlut. Þetta heitir á fræðimáli áfallaþroski eða áfallavöxtur (e. post-traumatic growth).

Seiglu er hægt að rækta
Góðu fréttirnar eru að hægt er að rækta bæði seiglu og hæfileikann til að þroskast í kjölfar erfiðleika. Rannsóknir benda til þess að ýmsar aðferðir, eins og að leita félagslegs stuðnings, rækta jákvætt viðhorf og draga meðvitað úr streitu, geti gert okkur sterkari á krefjandi tímum. Þó að sumir fái líklega meiri seiglu í vöggugjöf en aðrir, er þó alltaf hægt að auka hana.

Mikilvægi þess að byggja upp sterkt tengslanet
Viku eftir sett var á samkomubann í Kanada í mars 2020 hófu Simon Coulombe við Laval háskólann í Quebec og Tyler Pacheco við Wilfrid Laurier háskólann í Waterloo rannsókn á líðan 1000 fullorðinna Kanadamanna. Þeir endurtóku rannsóknina nokkrum vikum seinna og svo aftur tveimur mánuðum eftir að samkomubannið var sett á. 

Þátttakendur greindu frá mikilli streitu vegna óöryggis í starfi eða ótta við veiruna. Hjá mörgum tengdist streitan tilfinningunni um að lífið hefði að einhverju leyti misst merkingu sína. Félagslegur stuðningur og félagsleg tengsl reyndust vera einn stærsti verndandi þátturinn gegn streitu. Jafnvel á fyrstu vikum rannsóknarinnar sagðist næstum helmingur hafa upplifað merki um áfallaþroska, svo sem tilfinningu um að þeir hefðu náð að hjálpa öðrum. Mikilvægur þáttur í áfallaþroska reyndist vera tengslanet fjölskyldu og vina.

Að finna augnablik fyrir bjartsýni
Kannanir sem voru gerðar eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 sýndu að allt að 70% Bandaríkjamanna sögðust finna fyrir þunglyndi. Á móti sögðu 60% einnig að sambönd þeirra væru sterkari og að þeir finndu fyrir ástúð í garð ástvina. Rannsókn á nokkrum tugum háskólanemum á svipuðum tíma leiddi í ljós að þakklæti, ást og aðrar jákvæðar tilfinningar vikurnar eftir árásirnar voru verndandi þáttur gegn þunglyndi, þrátt fyrir að nemendurnir glímdu við svefn- og einbeitingarörðugleika.

Til að rækta jákvæðni mæla rannsakendur með því að leita huggunar í andlegum viðhorfum eða trúnni, gera skemmtilega hluti og ræða um góðar upplifanir. Það hefur verið sýnt fram á það að húmor, slökun og bjartsýnar hugsanir geta stuðlað að jákvæðni og hjálpað okkur við að takast á við krefjandi tíma. Á tímum heimsfaraldurs getur t.d. verið gott ráð að horfa á gamanþátt með fjölskyldunni.

Rannsóknir í taugavísindum benda til þess að jafnvel þó að bjartsýni sé okkur ekki eðlislæg, getum við orðið bjartsýnni. Að horfa á björtu hliðarnar getur hjálpað okkur við að átta okkur á því sem er að gerast og gera breytingar á lífi okkar.

Að draga meðvitað úr streitu
Það er sálfræðilega verndandi þáttur að draga úr streituviðbrögðum við erfiðleikum að mati Dr. Southwick, sem hefur stundað rannsóknir á sérsveitarkennurum og fólki sem hefur lifað af náttúruhamfarir. Langvarandi streitu getur aukið rúmmál sumra heilasvæða á kostnað annarra og  þar með dregið úr getu okkar til að stjórna tilfinningum. Aðferðir eins og núvitund og öndunaræfingar (hægur, djúpur andardráttur og lengri útöndun) virkja heilasvæði sem stýra athygli, tilfinningum og sjálfsvitund. Aðrar aðferðir til að minnka streitu eru að leita félagslegs stuðnings, sinna skapandi iðju og dýpka tengslin við annað fólk.

Í yfirlitsrannsókn frá 2019 greindu rannsakendur frá því að meðferðir sem miða að því að hjálpa krabbameinssjúklingum að takast á við streitu og finna merkingu í upplifunum sínum leiddu til betri geðheilsu og aukinna lífsgæða. Það sem við lærum af erfiðleikum og áföllum styrkir okkur þannig að við verðum ólíklegri til að upplifa áfallastreitu þegar við lendum í áfalli seinna meir, að sögn Dr. Southwick og félaga.

Fögnum því að hrist sé upp í okkur
Engum ætti að líða illa yfir því að líða illa, að sögn Dr. Southwick. Mikil vanlíðan er forsenda áfallaþroska og það getur tekið mánuði eða ár þar fyrir þann þroska að raungerast. Stórkostleg vakning getur fengið okkur til að endurmeta það sem skiptir máli í lífinu.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2022.