Mataræði og heilsa

Í dag getur verið vandasamt að treysta þeim upplýsingum sem fólki eru gefnar um æskilegt mataræði vegna þess að sá sem gefur slíkar leiðbeiningar gæti haft hag af því að veita þær. Eins getur reynst mikil áskorun að vinna úr öllum þeim misvísandi upplýsingum sem berast frá fjölmiðlum og fjölda vefsíða um hvernig sé best að haga mataræði sínu. 

Í fyrirlestrinum verður farið yfir hvernig leiðbeiningar um næringu geta verið misjafnar eftir því á hvaða lífsskeiði fólk er og hvaða sjúkdóma það er að kljást við. Þá er mikil áhersla lögð á að útskýra og segja frá opinberum ráðleggingum um mataræði í forvarnarskyni fyrir hina ýmsu sjúkdómum svo sem gegn krabbameinum, offitu, sykursýki , beinþynningu og svo framvegis. Einnig verða tekin dæmi um hvernig á að lesa útúr merkingum um matvæli og þá sérstaklega næringargildismerkingum. 

Fyrirlesari: Jóhanna Eyrún Torfadóttir. Hún er doktor í lýðheilsuvísindum og löggiltur næringarfræðingur. Jóhanna hefur starfað með málefni um næringu frá árinu 2001, bæði við rannsóknir sem og ráðgjöf til skólamötuneyta og við matvælalöggjöf og neytendavernd. Jóhanna hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um málefni næringar bæði tengt störfum sínum hjá Reykjavíkurborg og Umhverfisstofnun en einnig tengt efni doktorsverkefnis hennar sem fjallaði um áhrif næringar á áhættu á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Núna starfar Jóhanna sem nýdoktor hjá Rannsóknarstofu í næringarfræði hjá Háskóla Íslands og sinnir rannsóknarvinnu og kennslu. Meðal helstu verkefna er að rannsaka tengsl milli D-vítamínbúskapar á efri árum hjá Íslendingum við áhættu á að greinast með krabbamein í brjóstum og blöðruhálskirtli.