Lykillinn að góðu rifrildi

Það kannast allir við það að hafa lent í rifrildi. Flestir eiga sína uppáhaldsaðferð í ágreiningi, hvort sem hún virkar eða ekki. Þannig hafa sumir gaman af því að skerpa á andstæðum og stuða á meðan aðrir reyna að halda öllum góðum eða bakka og gefa eftir þegar á reynir. Sumir reyna að mætast á miðri leið o.s.frv.

Þannig dregur ágreiningur fram ákveðna hluti í okkar fari sem hægt er að læra af en um leið og við verðum reið eða óörugg minnkar gjarnan getan til að eiga við ágreininginn. 

Að eiga í ágreiningi er óhjákvæmilegur hluti af daglegu lífi okkar og starfi. Það er hvorki æskilegt né hægt að koma í veg fyrir ágreining en ef vel er að málum staðið eru mismunandi skoðanir uppspretta nýrra hugmynda. Mikilvægi þess að geta unnið úr ágreiningi á vinnustað á árangursríkan hátt fer vaxandi, þar sem hópstarf verður algengara og ákvarðanataka byggir í vaxandi mæli á samráði. En það eru til góðar aðferðir til að ná betri árangri, eins og t.d. að reyna að skilja viðmælandann og láta hann vita að þú skiljir hann áður en þú ætlast til að hann skilji þig.  

Í fyrirlestrinum er fjallað um mismunandi aðferðir til að eiga við ágreining og hvenær gott er að beita hverri og einni.

Fyrirlesari: Eyþór Eðvarðsson, MA í vinnusálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun