Listin að rýna til gagns

Það er betra að hugsa sig vel um áður en maður gagnrýnir því líkur eru á því að allt komi öfugt út úr manni og/eða túlkunin á því sem er sagt verði önnur en ætlað var. Svokölluð gagnrýni er ekki alltaf rýni til gagns og stundum er hún til ógagns. En hvernig á að gagnrýna svo að viðtakandinn taki mark á rýninni, upplifi hana gagnlega en verði ekki sár, reiður, pirraður, misskilji eða fari í vörn?

Marshall Rosenberg sem kunnastur er fyrir nálgun sem kennd er við ofbeldislaus samskipti (e. Non-violent Communication), talar um fimm skref sem góð endurgjöf þarf að innihalda. Þannig náum við að sleppa við algengustu mistökin við að veita gagnrýni sem eru að nota „þú“ boð, ásaka, dæma, heimta og hóta. Í bókinni Crucial Conversations er farið yfir aðferðir þeirra sem eru góðir í að gagnrýna og eiga við fólk sem fer í vörn. Þrjár aðferðir teljast sérstaklega gagnlegar til að glíma við varnarviðbrögðin sem líkleg eru til að koma við gagnrýni þ.e. fyrirbyggja, skerpa á ætluninni og biðjast afsökunar. Mikilvægasti lærdómurinn sem draga má af þeim bestu við að gagnrýna er viðhorfið.  

Í þessum létta, fræðilega og hressandi klukkustundar fyrirlestri er farið yfir dæmi um hvernig ekki á að veita gagnrýni og hvernig gott er að veita gagnlega rýni. Þetta er efni sem enginn hefur efni á að kunna ekki.

Fyrirlesari: Eyþór Eðvarðsson, MA í vinnusálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun