Erfið starfsmannamál

 

Það eru nokkur stjórnunarleg verkefni sem flestir stjórnendur eiga í erfiðleikum með að framkvæma. Annað þeirra er að ræða ófullnægjandi frammistöðu við starfsmenn og hitt er að færa slæm tíðindi eins og þegar starfsmaður fær ekki stöðuhækkun eða er sagt upp störfum. Bæði verkefnin vekja upp miklar viðkvæmar tilfinningar hjá viðmælandanum og reyna á stjórnunarfærni stjórnandans.


Að ræða ófullnægjandi frammistöðu
Markmið leiðréttingarviðtala er að bæta frammistöðu. Árangur viðtalsins ræðst af því hvað starfsmaðurinn gerir þegar samtalinu lýkur og því er mikilvægt að tryggja samþykki og samvinnu starfsmannsins. Fara þarf á sérstakan hátt inn í slík mál og gæta að virðingu og stolti. Einnig verður stjórnandinn að sýna festu, skilning og sveigjanleika. Góð leiðréttingarviðtöl fara í gegnum níu skref, frá því að tilkynna hvað það er sem þurfi að laga og þangað til lýst er yfir trú á að viðkomandi muni ná árangri.


Að færa slæm tíðindi eins og uppsagnir
Þegar verið er að færa slæm tíðindi, þ.e. óumbreytanlegar slæmar upplýsingar, er oft um að ræða átakanlegan atburð sem kallar fram mjög sterkar tilfinningar. Viðmælandinn getur farið úr jafnvægi og átt erfitt með að stjórna tilfinningunum. Gæta þarf að nokkrum mikilvægum atriðum þegar slæm tíðindi eru færð. Mikilvægast er að vita hvaða viðbrögðum megi búast við af þeim sem fær tíðindin þ.e. þekkja sorgarferlið sem fer af stað. Einnig að vita hvernig bregðast eigi við á hverju stigi í ferlinu. Undirstöðuatriði í samtalstækni eru nauðsynleg til að komast frá þannig viðtölum á ábyrgan hátt. Dæmi um slæm tíðindi eru t.d. uppsagnarviðtöl eða tilkynning um andlát náins aðila. Afar mikilvægt er að undirbúa vel hvenær, hvar og á hvaða hátt slæm tíðindi eru flutt. Hægt er að koma í veg fyrir mörg vandamál með því að taka á málum af fagmennsku.


Markhópur
Námskeiðið hentar öllum þeim sem vilja auka færni sína í að ræða viðkvæm frammistöðumál og læra að færa slæm tíðindi á uppbyggilegan hátt.


Fræðileg umfjöllun og þjálfun
Á námskeiðinu verður farið yfir það hvernig eigi að ræða erfið starfsmannamál og færa slæm tíðindi. Bæði verður farið yfir fræðilega umfjöllun um þessi erfiðu mál og æft hvernig best er að standa að þeim. Þátttakendur fá þjálfun í aðferðum við viðtalstækni sem skila sér í betri og uppbyggilegri viðtölum.


Meðal þess sem tekið er fyrir á námskeiðinu:

 • Agaviðtöl og leiðréttingarviðtöl
 • Einkenni slæmra tíðinda
 • Viðbrögð einstaklinga
 • Hvernig á að flytja slæm tíðindi?
 • Hvað ber að varast?

Ávinningur:

 • Meira öryggi í að eiga við erfið starfsmannamál.
 • Betri leiðréttingarviðtöl og meiri árangur.
 • Ábyrgari vinnubrögð gagnvart þeim sem fá slæm tíðindi.
 • Uppbyggilegri samtöl um frammistöðu og árangur.
 • Faglegri vinnubrögð.

Kennsluaðferðir:

 • Fyrirlestur
 • Umræður
 • Æfingar
 • Virk þátttaka

Lengd:
Námskeiðið er 7 klst. að lengd.


Leiðbeinandi:
Eyþór Eðvarðsson, stjórnendaþjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf.


 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |