Fyrirlestrartækni: Frá orði til áhrifa 


Margir þurfa í starfi sínu að koma fram fyrir aðra og halda lengri eða skemmri fyrirlestra um ýmis efni. Þegar flytja á fyrirlestur er undirbúningurinn lykilatriði. Í undirbúningnum felst m.a. að skilgreina markhópinn því erindið þarf að taka mið af bakgrunni áheyrenda, aldurssamsetningu, kyni, þekkingu þeirra og reynslu af efninu og viðhorfi þeirra og væntingum gagnvart fyrirlesara og efninu. Einnig þarf markmiðið með fyrirlestrinum að vera skýr: Er markmiðið að hafa áhrif á fólk (t.d. framboðsræður, sölukynningar, hvatningarræður og áróður), að fræða (t.d. í kennslu, á fræðslufundi, í viðtali eða á upplýsingafundi) eða fyrst og fremst að skemmta (t.d. tækifærisræða í brúðkaupi, afmæli, veislu, verðlaunaafhendingu, útskrift eða á árshátíð). Einnig er gott að gera sér grein fyrir aðstæðunum, uppröðun borða, notkun hjálpartækja, lengd ræðu ofl.


Fyrirlestur samanstendur yfirleitt af opnun, meginmáli og samantekt. Hann þarf að vera vel uppbyggður og skýr. Það er jafn mikilvægt að byrja vel og að enda vel. Áhrifarík opnun krefst góðs undirbúnings og fyrstu áhrif fyrirlesarans hafa mikið um það að segja hvernig til tekst með fyrirlesturinn. Miklu máli skiptir að enda á eftirminnilegan hátt, t.d. með tilvitnun, mynd, eða fullyrðingu. Uppbygging meginmálsins, sem tekur yfirleitt um 70% af tímanum, verður að vera rökréttur og efnisþættir fáir og skýrir.


Besta leiðin fyrir fyrirlesara til að ná athygli og halda henni er að koma efninu frá sér með sannfæringu, krafti og eldmóð. Með því að hækka og lækka róminn, beita líkamstjáningu, nota svipbrigði, handahreyfingar, endurtekningar og þagnir getur fyrirlesari hrifið áheyrendur með sér. Glærur geta verið gagnlegar til að ná athygli og undirstrika fyrirlesturinn. Með því að styðjast við glærur tryggir fyrirlesari einnig að áheyrendur noti fleiri skynfæri við að meðtaka upplýsingar, bæði sjón og heyrn.


Á námskeiðinu fá þátttakendur þjálfun í að flytja fyrirlestra fyrir framan hóp af fólki. Farið er í mismunandi tegundir og markmið fyrirlestra, uppbyggingu fyrirlesturs, framkomu og tjáningu í fyrirlesturs, samspil fyrirlesara og umhverfis og að ná og halda athygli. Þátttakendur flytja ræður, bæði óundirbúnar og undirbúnar.


Meðal þess sem tekið er fyrir á námskeiðinu:

 • Hvað einkennir góðan fyrirlestur?
 • Væntingar þeirra sem hlýða á.
 • Hvernig kem ég efninu best til skila?
 • Að gera fyrirlestur áhrifaríkari.
 • Framkoma og tjáning.
 • Að ná og halda athygli.
 • Samspil ræðumanns og umhverfis.
 • Notkun hjálpartækja.

Ávinningur:

 • Betri og markvissari framsetning.
 • Betri uppbygging fyrirlestra.
 • Meira öryggi í framkomu fyrir framan hóp af fólki.
 • Áhrifameiri framsetning.

Kennsluaðferðir:

 • Stuttir fyrirlestrar.
 • Kynningar og ræður.
 • Verklegar æfingar.
 • Umræður.

Fjöldi þátttakenda:
Hámarksfjöldi þátttakenda á þessu námskeiði er 12 manns.


Lengd:
Námskeiðið er 8 klst. að lengd og skiptist í tvo hluta (2 x 4 klst.).


Leiðbeinandi:
Eyþór Eðvarðsson eða Ingrid Kuhlman, þjálfarar og ráðgjafar hjá Þekkingarmiðlun ehf.


Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |