Fagmennska í vinnubrögðum


Við öflum ítarlegra upplýsinga um þau verkefni sem okkur eru falin. Það hjálpar okkur að leggja fram ígrundaðar tillögur að aðgerðum.
 • Við leitumst við að gera ítarlegar þarfagreiningar til að geta boðið lausnir sem eru sérsniðnar að þörfum og óskum viðskiptavina hverju sinni.
 • Ef við erum ekki viss um að við höfum réttan skilning leitum við nánari upplýsinga.
 • Við tökum ekki mark á gróusögum og órökstuddum fullyrðingum heldur berum ábyrgð á að leita réttra upplýsinga.
 • Við erum opin, uppbyggileg, heiðarleg og áreiðanleg í samskiptum.

Við segjum hug okkar, skoðanir og ætlanir og stuðlum að hreinskilnum samskiptum milli Þekkingarmiðlunar, samstarfsaðila hennar og viðskiptavina.

 • Ef við erum beðin um álit gefum við okkar faglega mat, jafnvel þó að það geti kostað okkur viðskipti.
 • Ef við erum ósátt þá ræðum við það á uppbyggilegan og gagnrýninn hátt.
 • Ef við höfum grun um að óánægja, ósætti eða annað sé til staðar hjá viðskiptavinum eða samstarfsaðilum þá leitum við leiða til að ræða það og höfum frumkvæði að því ef ástæða er til.
 • Við förum ekki í manngreinarálit vegna kynþáttar, færniröskunar, menningar, trúarbragða, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, þjóðfélagsstöðu eða stjórnmálaskoðana viðskiptavina okkar.

Við gætum trúnaðar gagnvart málefnum viðskiptavina.
 • Við ræðum ekki málefni viðskiptavina við þriðja aðila.
 • Ef um formlegt trúnaðarsamband er að ræða þá virðum við það í fullu og öllu.
 • Við stuðlum að því af fremsta megni að gögn er varða viðskiptavini og starf okkar séu varðveitt og fargað á svo traustan hátt að þau komist ekki í hendur óviðkomandi.
 • Við gætum öryggis með gögn og aðgengi að okkar vinnutölvum.
 • Við viðhöfum vandvirkni og varúð í samskiptum með tölvupósti og gætum þar fyllsta trúnaðar gagnvart viðskiptavinum.
 • Ef umræða um viðskiptavini okkar kemur upp í verkefnum og/eða námskeiðum gætum við hlutleysis og virðum trúnað. 
 • Við gætum ávallt trúnaðar við meðhöndlun viðkvæmra upplýsinga sem geta komið þeim illa sem veitti okkur þær af ábyrgð. 
 • Við öflum samþykkis áður en við gefum upp nöfn eða aðrar upplýsingar.
 • Við leitum leiða til að vinna eins faglega að öllum málum og kostur er.

Við leitum til fagaðila til að framkvæma verkefni sem við vinnum ekki sjálf.

 • Við styðjumst við faglegar aðferðir í starfi. Ef við efumst um að fagleg þekking okkar sé nægjanleg þá leitum við til þeirra aðila sem geta ráðlagt okkur eða viðskiptavinum okkar.
 • Við látum aldrei þriðja aðila bera ábyrgð á því sem við látum frá okkur, þrátt fyrir að hann sé sá sem upplýsir okkur.
 • Við viðurkennum mistök ef við gerum þau og leitum leiða til að bæta fyrir þau.
 • Við drögum lærdóm af mistökum okkar.
 • Við vinnum samkvæmt eigin sannfæringu óháð því hver viðskiptavinurinn er eða hver fjármagnar þá vinnu sem unnin er. Við upplýsum ávallt um persónuleg eða viðskiptaleg hagsmunatengsl, séu þau til staðar.
 • Við virðum höfundarréttindi og getum ávallt þeirra heimilda sem við notum, í samræmi við viðtekin fræðileg vinnubrögð.
 • Við stöndum vörð um orðspor Þekkingarmiðlunar.
 • Við sýnum heilindi í hegðun okkar, vinnubrögðum og virðingu gagnvart viðskiptavininum.
 • Við ræðum með virðingu um viðskiptavini,  samstarfsmenn, samstarfsaðila, samkeppnisaðila eða vinnustað.
 • Við tökum ekki að okkur verkefni sem á einhvern hátt falla ekki að gildum okkar þ.e. fagmennsku, ábyrgð, þjónustu og metnaði.
Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |