Skipulag námsins


Hvað gerir góðan ráðgjafa? – 4 klst. 
Í fyrsta skrefinu verður farið yfir þau atriði sem gera góðan ráðgjafa. Þátttakendur draga fram þau atriði sem aðgreina góða ráðgjafa frá þeim sem eru ekki eins góðir. Farið er yfir fræðilegan grunn árangursþáttanna og þeir skilgreindir og ræddir. Hver og einn leggur mat á eigin ráðgjafarfærni útfrá árangursþáttunum og ræðir í tveggja manna hópi. Markmiðið er að draga fram árangursþættina í ráðgjöf, ræða þá og fá ítarlegan skilning á því hvað þarf til að vera góður ráðgjafi. Einnig að greina eigin styrkleika og sóknarfæri í ráðgjöf.  

Ráðgjöf og samtalstækni – 4 klst. 
Í öðru skrefinu verður farið yfir þau skref sem ráðgjafarferlið inniheldur. Fjallað verður um hvernig traust verður til og hvað ráðgjafi getur gert til að auka trúverðugleika sinn og ráðgjafarferlisins. Farið er yfir samtalstækni og þau atriði sem tengjast henni þ.m.t. spurningatækni, virk hlustun, íhlutun, óyrt tjáning og skilningur. Farið verður í ítarlegar æfingar í samtalstækni. Þátttakendur taka viðtöl við hvert annað í þriggja manna hópum þar sem einn er spyrill, einn er í viðtalinu og sá þriðji veitir endurgjöf á spurningatækni, virka hlustun, líkamsmál, áhuga, augnsamband, tón og raddbeitingu, flæði í samtali o.fl. Meðal þess sem æft verður er þarfagreining með viðskiptavini. Markmiðið er að auka skilning á ráðgjafarferlinu og þeim atriðum sem varða traust og trúverðugleika. Fara yfir samtalstækni þ.m.t. spurningatækni, virka hlustun og skilning. 

Samskipti og ágreiningur – 4 klst. 
Í þriðja skrefinu verður farið yfir efni sem tekur á ágreiningi og hvernig meðhöndla eigi spennu í samskiptum. Farið verður yfir mismunandi leiðir sem eru mögulegar í ágreiningi og hvenær rétt er að beita þeim. Þátttakendur fá hópverkefni sem þarf að finna sameiginlega lausn á. Verkefni krefst þess að tekist sé á við ágreininginn í hópnum. Einnig verður farið yfir hagnýta aðferðafræði sem fjallar um hvernig orða eigi samskiptin í erfiðum aðstæðum. Þátttakendur fá endurgjöf á eigin færni í hópastarfi þar sem tekist er á. Markmiðið er að auka þekkingu á ágreiningsfræðunum og hvernig best er að vinna með spennu í samskiptum. Þekkja mismunandi tegundir ágreinings og leiðir til að vinna í ágreiningi. Æfa meðhöndlun spennu og ágreinings í samskiptum.  

Áhrif og sannfæringarkraftur – 4 klst. 
Í síðasta hlutanum verður farið í aðferðir við að hafa áhrif á hegðun. Mikilvægur hluti ráðgjafar er að fá fólk til að taka réttar ákvarðanir t.d. við kaup á vörum og þjónustu. Innsýn í grunnatriði í sölutækni er því gagnleg. Farið er í æfingar sem miða að því að draga fram ávinning og styðja með rökum. Fjallað verður um hagnýtar leiðir til að fá fólk til að sættast á ákveðna niðurstöðu sem ráðgjafi er sannfærður um að sé sú eina sem máli skiptir. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við að neitt annað en heiðarlega og vel ígrundaða ráðgjöf. Markmiðið er að kynna og æfa grunnatriði sölutækni og þekkja mismunandi leiðir til að hafa áhrif á fólk.  

Kynningartækni og framkoma – 4 klst.
Það að geta haldið kynningar og flutt erindi er nauðsynlegur hluti í ráðgjöf. Algengt er að ráðgjafar þurfi að kynna fyrir viðskiptavinum hugmyndir sínar, skoðanir og mat. Framkomukvíði og óöryggi eru eðlileg viðbrögð en mega ekki ráða því hvað er sagt og hvernig. Fagleg og vel undirbúin kynning sem flutt er af sannfæringu og öryggi á að vera á færi allra ráðgjafa. Farið verður yfir lykilatriði í kynningartækni og framkomu og látið reyna á færnina fyrir framan hópinn. Þátttakendur mæta með eigin kynningar og fá endurgjöf og leiðsögn þ.m.t. á notkun hjálpartækja eins og Power Point. Markmiðið er að þekkja og æfa kynningar fyrir framan hóp. Auka öryggi og fagmennsku í framkomu.  

Lengd:
Lengd námsins er 20 klst.

Fjöldi þátttakenda
Til að tryggja hámarksárangur er fjöldi þátttakenda takmarkaður við 16.

Leiðbeinandi: 
Aðalþjálfari er Eyþór Eðvarðsson, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf. En aðrir þjálfarar koma einnig að náminu. 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |