Skipulag námsins


Samskiptastílar fólks – 4 klst.
Á námskeiðinu verður lagt fyrir Myers Briggs persónuleikaprófið sem er mest notaða prófið sinnar tegundar í heiminum. Prófið tekur á því að þó að við séum mjög lík þá erum við öll einstök. Munurinn sem er á okkur veldur því m.a. að okkur gengur misjafnlega að ná til sumra en annarra. Lykilatriði er að skilja hvernig við höfum samskipti. Það auðveldar öll samskipti að vita hvernig fólk hegðar sér og af hverju það gerir það sem það gerir. Ein þekktasta aðferðin til greiningar á samskiptastílum er byggð á kenningu Carl Gustaf Jung um sálfræðilegar týpur. En sú kenning gefur innsýn í hegðun og samskiptamáta fólks. Gerð er greinarmunur á 16 sálfræðilegum týpum útfrá fjórum þáttum sem eru Extrovert-Introvert, Sensing-Intuition, Thinking-Feeling og Judging-Perceiving. Þekking á þessum eðlislæga mismun milli einstaklinga opnar nýjar víddir í samskiptum og auðveldar skilning í umburðarlyndi og árangur í samskiptum.  

Að koma fram af sjálfsöryggi – 2 x 4 klst. 
Þegar fólk er beðið um að nefna þau 14 atriði sem það kvíði mest fyrir setur fjörutíu og eitt prósent það að koma fram fyrir hóp af fólki í fyrsta sæti, á undan kjarnorkustríði og gjaldþroti! Stór hluti fólks myndi s.s. frekar deyja en að halda ræðu. Við óttumst höfnun og gagnrýni og upp koma alls kyns kvíðavekjandi hugsanir um að við munum gleyma öllu því sem við ætluðum að segja, byrja að stama eða roðna, missa röddina, gera okkur að fíflum o.s.frv. 
Á námskeiðinu auka þátttakendur færni sína í að koma fram af öryggi fyrir framan hóp af fólki og treysta á eigið ágæti. Þeir öðlast betri skilning á eigin kvíðaviðbrögðum og læra að stjórna sviðsskrekk og ótta. Farið er í framkomu og tjáningu, samspil ræðumanns og umhverfis, ótta og öryggi, að ná og halda athygli og kvíðavekjandi og sjálfsstyrkjandi hugsanir. Þátttakendur halda ræður og fá endurgjöf á framkomu sína frá þjálfara og öðrum þátttakendum.
Samskiptafærni – 2 x 4 klst. 
Á námskeiðinu er farið í samskiptafærni. Það er ekki hægt að vera góður í samskiptum án mikillar færni í samtalinu. Samtalstækni fjallar um nokkur atriði sem liggja til grundvallar þessu námskeiði. Í fyrsta lagi er það að vera viss um að maður sé að heyra rétt, skilja rétt og ef maður er ekki viss að spyrja þá spurninga. Þekking á tegundum spurninga er eitt af lykilatriðunum þegar kemur að samtölum. Því ef það er eitthvað sem hefur áhrif á svarið þá er það spurningin. Margar tegundir spurninga eru til sem bjóða uppá mismunandi svör. 
Þátttakendur taka þátt í hagnýtum æfingum þar sem þeir tileinka sér aukna samtalsfærni.

Að auka seiglu og stjórna eigin líðan – 4 klst. 
Árið 2002 kom út metsölubók eftir Karen Reivich Ph.D. og Andrew Shatté Ph.D. sem nefnist The Resilience Factor. Í bókinni segja höfundar frá víðtækum rannsóknum sínum á því hvernig framúrskarandi einstaklingar takast á við mótlæti og erfiðleika í leik og starfi. Við höfum öll tilhneigingu til að nota ákveðinn hugsunarstíl til að útskýra það sem gerist í lífi okkar og hvers vegna það gerist. Við þróum þennan stíl í æsku og höldum okkur við hann það sem eftir er ævi okkar, nema við tökum meðvituð skref til að breyta honum. Hugsunarstíllinn virkar eins og viðmið sem við notum til að útskýra fyrir sjálfum okkur hvers vegna hlutir, slæmir eða góðir, hendi okkur. Hægt er að auka seigluna með því að breyta hugsunum sínum. 
Á námskeiðinu er farið í sjö þætti seiglu, hvernig þeir birtast og hvaða áhrif þeir hafa á einstaklinga og árangur. Farið er í hagnýtar æfingar sem auka seiglu og gefa innsýn í eigin hugsanir og orsakagreiningar.

Að vera eða vera ekki hamingjusamur – 4 klst.
Í söngtexta segir Megas fólki að smæla framan í heiminn og þá muni heimurinn smæla framan í það en hamingjan felst þó ekki í því. Hún felst ekki heldur í því að hætta að taka geðvonskuköst yfir tengdamömmu og bensínverðinu né heldur að vera gersneyddur gagnrýninni hugsun og vera bara happý með aðgerðir ríkisstjórnarinnar eða IceSave svo eitthvað sé nefnt. En hvernig á að skilgreina hamingjuna? Gagnlegasta skilgreiningin – og sú sem taugasérfræðingar, geðlæknar, jákvæðnisálfræðingar og búddamunkar geta sameinast um – er meira í áttina við ánægju eða það að vera sáttur en „hamingjusamur“ í þeim skilningi að maður springi af kæti. Hún hefur ákveðna dýpt og yfirvegun. Hún lýtur að því að lifa innihaldsríku lífi þar sem maður notar hæfileika sína og tíma - útpældu lífi sem hefur tilgang. Hamingjan nær hámarki þegar maður upplifir sig einnig sem hluta af samfélagi. Og þegar maður tekst á við gremju sína og vandamál með þokka. Hamingja innifelur viljann til að læra og dafna og vaxa, þó að það þýði stundum óþægindi og kosti sjálfsaga sem Íslendingar eru kannski ekki flinkastir í. 
Á námskeiðinu verður farið í það sem rannsóknir hafa fært okkur um hamingjuna og dregið fram hvað megi gera svo öðlast megi þetta eftirsótta hugarástand.

Lok námsins, mat á árangri og framtíðin – 4 klst.
Lokaskrefið í þjálfuninni er tvíþætt, annarsvegar að renna yfir öll skrefin í náminu og hver og einn dregur fram það sem hann lærði og gerir grein fyrir því. Hinsvegar verður horft fram á veginn. Hver og einn horfir fram á veginn út frá sjálfum sér og býr til eigin framtíðarsýn og skráir hana niður.

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |